Verkefnalisti dagsins

Byrjum á spurningakeppni....Hvað er það algengasta sem stjórnendur vilja vinna með þegar þeir red-pen-and-checklist.jpgleita aðstoðar stjórnendaþjálfara???


Ef þú svaraðir tímastjórnun þá hefur þú rétt fyrir þér. Þá tala ég út frá minni reynslu úr störfum mínum með stjórnendum undanfarin ár.


Þegar farið er að skoða hvers vegna tíminn er af svo skornum skammti í störfum stjórnenda þá kemur oft í ljós að vandinn sem er undirliggjandi er einhver allt annar en birtingarmynd hans er slæm nýting á tíma (í þessari setningu má hæglega skipta orðinu vandi út fyrir tækifæri – prófaðu!). Stundum kemur í ljós að stjórnandinn mætti gera mun meira af því að dreifa valdi- og verkefnum, í einhverjum tilfellum þarf viðkomandi að auka samskiptahæfni sína, jafnvel spyrja sig hvort hann er með rétta fólkið í teyminu sínu eða hvort hann treysti fólkinu sínu nægilega vel og ef ekki hver er þá ástæðan fyrir því. Og svo mætti lengi telja. Vandamálið sem stjórnandinn upphaflega vildi vinna með og takast á við er í raun ekki vandamál heldur birtingarmynd og þegar sú staðreynd er komin upp á borðið er hægt að takast á við það sem raunverulega færir viðkomandi aukinn árangur.


Stundum eru tækifærin til úrbóta hinsvegar sáraeinföld og snúa i raun og veru að tímastjórnun og skipulagi. Það er ótrúlegt hvað eins einfaldur hlutur og verkefnalisti dagsins getur skilað miklu. Margir nýta sér blessaðan „to do“ listann í sínum störfum en ná einhvern veginn ekki alveg tökum á honum. Ef þú ert í þeirra hópi, prófaðu þá eftirfarandi:

  1. Gerðu verkefnalistann við lok vinnudags svo hann bíði þín tilbúinn á borðinu þegar til vinnu er komið daginn. Ef hann er ekki tilbúinn er meiri hætta á að þú hlaupir í „einhver“ verkefni sem kastað er til þín þegar vinnudagurinn byrjar en þau verkefni eru ekki endilega þau mikilvægustu eða þau sem þú ættir að vera að vinna í. Áður en þú veist af er vinnudagurinn búinn og þú ferð heim með enn lengri verkefnalista og hugsunina „hvað gerði ég eiginlega í dag“ í kollinum.
  2. Notaðu það form fyrir verkefnalistann sem hentar þér best. Hvort sem það er word-skjal, task listi í tölvunni , listi í þar til gerðum tölvukerfum (t.d. http://www.rememberthemilk.com/ )eða handskrifaður listi. Það sem virkar fyrir aðra virkar ekki endilega fyrir þig. Margir vilja eyða þeim atriðum sem lokið er, aðrir vilja sjá þau á blaði og upplifa sigurinn við að horfa yfir blað með útstrikuðum atriðum sem gefa til kynna afkasta mikinn dag. Sumir vilja hafa listann í snjallsímanum til að geta alltaf haft hann með sér eða aðrir vilja skilja hann eftir á skrifborðinu til að fá „hvíld“ frá honum að kvöldi. Prófaðu þig áfram og finndu það form sem hentar þér best.
  3. Nýttu listann til að forgangsraða. Ekki falla í þá gryfju að forgangsraða eingöngu eftir skilafrestum verkefna heldur líka út frá því hvaða atriði á listanum færa þig hraðast í átt að mikilvægustu markmiðunum þínum.
  4. Veldu 3-5 allra mikilvægustu atriðin af listanum og settu þau í algeran forgang, sama hvaða óvæntu atburðir koma upp. Þessu verður að vera lokið í lok dags – gæti kallað á að þú þyrftir að segja nei við einhverju eða stilla væntingar til skila annarra verkefna af.
  5. Taktu upp niðurskurðarhnífinn þegar þú hefur lokið forgangsröðuninni og skerðu 20% af listaum neðan frá. Þau atriði sem lenda neðst eru eðli málsins samkvæmt þau síst mikilvægu. Bara það að strika þau út gefur þér aukið rými til að vinna í þeim atriðum sem raunverulega skipta máli.

 

Einhver kann að hugsa með sér: „já en verkefnin mín eru öll svo mikilvæg. Það er mjög erfitt fyrir mig að forgangsraða, það er allt svo mikilvægt sem ég er að gera – hvað þá að ég geti strikað út neðstu 20 prósentin þegar ég þó hef bögglast í gegnum forgangsröðunina.“ Ef þessar hugsanir eiga við um þig fylgstu þá með næsta pistli sem fjallar um hagnýt ráð til að forgangsraða.

Unnur Valborg Hilmarsdóttir
Stjórnendaþjálfari og eigandi Vendum, www.vendum.is
unnur@vendum.is

Hvað gerir þú mörg mistök í dag?

Albert Einstein sagði að hver sá sem ekki hefði gert mistök hefði aldrei reynt neitt nýtt. Í þeim orðum felst mikill sannleikur. Sá sem aldrei reynir neitt nýtt fer líklega lítið sem ekkert út úr sínum þægindahring með þeim hömlum á þroska og vöxt sem því fylgir.  Við óttumst mistökin og að gera eitthvað sem hætta á að feli í sér höfnun en um leið viljum við flest vaxa og dafna. Til þess að vaxa og dafna verðum við að skora á okkur, gera eitthvað nýtt og hætta þannig á að gera mistök og/eða verða hafnað.

Við gerum öll mistök. Á dögunum las ég áhugaverðan lista þar sem sagt er frá fólki sem náð hefur miklum árangri og er heimsþekkt en hefur ekki alltaf notið slíkrar velgengni og upplifað mistök og höfnun, alveg eins og við hin.

Henry Ford – Ford Motor Corporation var þriðja fyrirtækið sem hann stofnaði. Hin tvö urðu gjaldþrota.
Steve Jobs – var rekinn frá Apple.
JK Rowling – 12 útgefendur höfnuðu Harry Potter.
Walt Disney – var rekinn af dagblaði þar sem hann þótti ekki fá nægilega margar og góðar hugmyndir.
Soichiro Honda – var ekki ráðinn þegar hann sótti um verkfræðistöðu hjá Toyota.
Thomas Edison – kennari hans sagði honum að hann væri „of heimskur til að læra nokkuð.“
Michael Jordan – var rekinn úr körfuboltaliðinu í grunnskóla þar sem hann „skorti hæfni.“
Simon Cowell – verður gjaldþrota, flytur heim til foreldra sinna og er sagt að hann geti ekki náð árangri í tónlistarheiminum.
John Grisham – 16 umboðsmenn og 12 útgefendur höfnuðu honum
Oprah Winfrey – var rekin úr starfi sem fréttaþulur þar sem hún þótti ekki „henta í sjónvarp.“
Fred Astaire – áskotnaðist minnismiði eftir áheyrnarprufur hjá MGM sem á stóð „getur ekki leikið. Hárið farið að þynnast. Getur örlítið dansað.“
Alex Hayley – skrifaði metsólubókina Rætur (Roots) en fékk 208 bréf þar sem henni var hafnað til útgáfu.

Stærstu mistökin sem þetta fólk hefði getað gert voru að gefast upp. Þau gáfust ekki upp, þau létu ekki óttann við höfnun eða mistök aftra sér í því að eltast við drauma sína og náðu árangri á endanum.

Hvað ætlar þú að reyna í dag sem þig hefur lengi dreymt um en ekki gert af ótta við mistök eða höfnun?


Orð eru til alls fyrst

Liggur leyndarmálið að auknum árangri í innri röddinni?


„Ég er ekki góð í að hvetja fólk áfram“
„Ég hef alltaf verið lélegur í tímastjórnun“canstockphoto5087685
„Ég get ekki selt“
„Ég er ekki góð í að virkja tengslanetið“
Ég get ekki – ég kann ekki – ég er lég(ur) – ég hef aldrei getað – ég mun ekki geta !!!!


Ofangreint eru orð sem ég hef heyrt færa stjórnendur láta út úr sér á undanförnum dögum. Fólk sem út á við virðist hafa náð góðum árangri, fólk sem við hin dáumst að og segjum jafnvel „af hverju get ég ekki verið eins og hann/hún?“ Það kemur mér alltaf jafn mikið á óvart hvernig þetta fólk – alveg eins og  við hin - talar við sjálft sig. Hvernig við rífum okkur niður með neikvæðni, alhæfingum og þröngsýni. Við segjum þessi orð sjaldnast upphátt en hugsum þau þeim mun oftar. Einhverstaðar las ég að allt að 60 þúsund hugsanir geti flogið í gegnum mannshugann á degi hverjum. Þar af vilja margir áætla að 70-80% séu neikvæðar hugsanir líkt og þær sem stjórnendurnir færðu í orð hér að ofan. Ef rétt reynist þá er það alvarlegt mál. Hvernig innri rödd okkar rífur okkur niður og í raun heldur okkur niðri. Ég velti stundum fyrir mér hvaða árangri væri mögulegt að ná með því einu að snúa innri röddinni við og gera hana jákvæðari.


Fyrirtækið þú!
Fyrir nokkru las ég grein í veftímariti þar sem því er haldið fram að lykillinn að árangri sé einmitt að ná tökum á þessari innri rödd. Í greininni eru settar fram áhugaverðar leiðir til þess að vinna bug á þessum leiða ávana.

Segjum sem svo að þú værir fyrirtæki að skilgreina tilgang sinn, setja niður markaðsherferð og sölunálgun. Líkur eru á að mikill tími færi í að orða skilaboð fyrirtækisins út á markaðinn. Í mörgum tilfellum verja fyrirtæki milljónum króna í að búa til hin fullkomnu skilaboð og til að skýra samskiptin við markaðinn. Orðin sem lýsa fyrirtækinu eru gríðarlega mikilvæg til jafns við útlit markaðsefnis og móta ásýnd fyrirtækisins. Fyrst orðin eru svona mikilvæg skýtur það ansi skökku við að þau orð sem við notum í samskiptum við mikilvægasta hagsmunaaðilann í okkar lífi – okkur sjálf – séu illa ígrunduð, ómeðvituð, neikvæð og stuðli að niðurrifi frekar en hitt.


Brattabrekka
Ef orðin sem við notum þegar við tölum við okkur sjálf eru sífellt neikvætt gildishlaðin og ræna okkur orku er líklegt að leið okkar til árangurs verði brattari brekka en ella. Við komumst hugsanlega upp brekkuna en erfiðið verður meira. Það sem meira er, neikvætt sjálfstal hefur tilhneigingu til að smitast út í hvernig við tölum við aðra sem varpar skugga á samskipti og hefur neikvæð áhrif á tengslanet okkar. Í alvöru, vilt þú vera í samskiptum við þá sem gefa sífellt frá sér neikvæða orku?


Hvað er til ráða?
Innri rödd okkar mótast á löngum tíma. Til að breyta þeim hugsunum sem fara ómeðvitað af stað þarf meðvitað að grípa inn í. Það þarf ekki að vera flókið ferli en er svo sannarlega þess virði. Stígðu þessi þrjú skref og náðu enn meiri árangri:

  1. Hlustaðu á hugsanir þínar. Vertu meðvituð/aður um hugsanir þínar. Í stað þess að láta þær vaða stefnulaust yfir allt og alla staldraðu við. Skoðaðu hvaða orð þú notar, bæði um þig og aðra í huganum, og hvaða áhrif þau hafa á þig.
  2. Skrifaðu orðin niður og merktu „jákvætt“ , „neikvætt“.
  3. Skiptu neikvæðu orðunum út fyrir kraftmeiri orð, skoðaðu jafnvel hvort jákvæðu orðin geti verið enn sterkari. Hafðu listann með gömlu og nýju orðunum á áberandi stað til að minna þig á að nota nýju orðin þegar þú grípur þig í hugsunum sem ræna þig orku. Smátt og smátt ferðu að nota kraftmeiri orðin ósjálfrátt.

Dæmi um „gömul“ og „ný“ orð:
Í stað þess að segja Reyna  notaðu Ætla
Í stað þess að segja að þú sért Léleg(ur) þá hefurðu Tækifæri til bæta
Í stað þess að eitthvað séu Vonbrigði  þá Kom það á óvart
Í stað þess að Hafa aldrei getað þá er þetta eitthvað sem þú vilt ná tökum á
Mistök  eru sannarlega Lærdómur
Það sem er Gott getur líka vel verið Frábært

Unnur Valborg Hilmarsdóttir
Stjórnendamarkþjálfi
www.vendum.is


Hefurðu reynt að gleypa fíl?

Hvernig litlu breytingarnar geta haft mikil áhrif

Flestir kannast við gátuna Hvernig borðar maður fíl?  og þekkja þá jafnframt svarið Einn bita í einu.  Þessi gáta er mjög oft notuð þegar einhver færist mikið í fang eða þegar þarf að brjóta stór markmið niður í minni og viðráðanlegri einingar. Það er jú algerlega lífsins ómögulegt að gleypa blessaðan fílinn í einum bita.

Við Íslendingar erum hins vegar oft ansi gjörn á að ætla okkur að gleypa fílinn. Við setjum okkur sum hver fjölda markmiða og ætlum okkur oftar en ekki að ná hámarksfærni á lágmarkstíma. Erlendur hlaupaþjálfari orðaði það sem svo að þegar samlandar hans settu sér markmið um að hlaupa maraþon þá geri þeir það með nokkurra ára fyrirvara, ráða sér hlaupaþjálfara og byggja sig upp smátt og smátt á nokkrum árum fyrir stóru stundina. Íslendingar aftur á móti eigi það til að setja sér það markmið í júní að hlaupa í Reykjavíkurmaraþoninu í ágúst, kaupa sér hlaupaskó og vaða af stað.

Nú verð ég síðust manna til að hvetja fólk til að setja sér lágstemmd markmið. Þvert á móti. Ég skora á mína viðskiptavini að setja sér metnaðarfull og krefjandi markmið, en þau verða engu að síður að vera raunhæf. Að öðrum kosti erum við að auka líkur á því að okkur mistakist og mistök hafa ekki góð áhrif á sjálfstraust okkar mannanna. Það er því línudans að setja sér krefjandi en um leið raunhæf markmið sem hvetja okkur til árangurs.

Nú eru margir í þeim sporum að setja sér markmið varðandi nám og störf eftir gott sumarfrí. Það er því ekki úr vegi að rifja upp til viðbótar við gátuna hér upphafi, máltæki sem er okkur Íslendingum að góðu kunnt. Margt smátt gerir eitt stórt. Það er nú einu sinni þannig að litlar breytingar sem við gerum og höldum út í langan tíma munu safnast saman í eitt stórt þegar yfir líkur. Langtímasparnaður gengur út á nákvæmlega þetta. Foreldrar leggja smáupphæðir inn á framtíðarreikninga barna sinna og á þeim tæpu 20 árum sem reikningarnir eru bundnir verða til góðir sjóðir úr þeim smápeningum sem foreldrarnir finna lítið fyrir að leggja til hliðar mánaðarlega.

Fyrir stuttu rakst ég á grein á vefmiðli um offitu barna þar sem staðhæft var að með því einu að minnka hitaeininganeyslu barna um aðeins 64 hitaeiningar á dag megi stemma stigu við óæskilegri þyngdaraukningu barna (sjá grein hér). 64 hitaeiningar samsvara 1/3 úr kókdós, 7 kartöfluflögum, 7 m&m kúlum eða 1/3 úr snickersi (þá er átt við snickers af stærðinni sem var eina stærðin sem hægt var að fá þegar ég var að alast upp – ekki þessi risasnickers sem fáanleg eru í dag). Það að sleppa einhverju af þessu úr dagneyslunni er viðráðanlegt og langtímaáhrifin eru þess virði að reyna það.

1% breyting á stefnu LA til NY

Flugvél sem tekur á loft í Los Angeles á leið til New York og gerir ekki nema 1% breytingu á stefnu til norðurs eða suðurs endar heilum 250 km frá upphaflegum áfangastað. Í Albany eða Delaware. 1% breyting sem á lengri leið þýðir 250km breytingu á áfangastað. Sem sagt, margt smátt gerir eitt stórt!

Það eru því litlu breytingarnar sem við gerum og höldum út í langan tíma sem geta skila okkur miklum árangri og eru viðráðanlegri en að ætla sér að troða í sig fílnum margumrædda í einum bita. Úthald í sambland við raunhæf markmið er það sem skilar okkur árangri.

Hvaða 1% breytingu getur þú gert á þinni stefnu í dag sem skilar þér á nýjan og betri áfangastað?

Unnur Valborg Hilmarsdóttir
Stjórnendamarkþjálfi
www.vendum.is


Beint í mark...

Flest vitum við að stærstu tækifærin liggja fyrir utan þægindahringinn. Þægindahringurinn er samheiti yfir það sem okkur finnst þægilegt, aðstæður sem okkur líður vel í, það sem við kunnum og getum. Bandarísk vinkona mín sem komin er vel yfir miðjan aldur hefur tamið sér undanfarin ár að gera eitthvað á hverju ári sem hún er logandi hrædd við. Með því móti vill hún meina að hún stækki sjálfið, víkki þægindahringinn og nái þar með meiri árangri. Þegar ég hitti hana síðast var næst á dagskrá að fara í hellaköfun (vert er að taka fram að hún er búin með fallhlífastökk, teygjustökk, loftbelgjaferð, kappakstur o.fl. af þeim toga sem við hin myndum aldrei láta okkur dreyma um að gera). Hver svo sem leið okkar er að því að efla okkur og styrkja þá þekkjum við flest þá vellíðan sem felst í því að klára með góðum árangri verkefni sem okkur fannst erfitt og við töldum jafnvel að væri okkur ofviða. Við það að ljúka verkefninu fáum við fullvissu um að við getum meira en við héldum og getum tekist á við stærri áskoranir í framhaldinu.

 299215_295709373775951_100000106713665_1429327_1347513636_n 

Myndin hér að ofan hefur gengið á samfélagsmiðlum um nokkurt skeið og sýnir á táknrænan hátt hvar tækifærin liggja. Með því að sitja inni í þægindahringnum er líklegt að við verðum af tækifærum. Það er synd að hegðun okkar sjálfra geri það að verkum að við verðum af tækifærum. En það er því miður alltof oft raunin. Hræðsla okkar sjálfra gerir það að verkum að við látum ekki vaða. „nei ég get þetta ekki, þetta mun aldrei ganga upp, hvað mun fólk segja um mig og ég hef aldrei gert svona áður“ eru meðal þeirra hugsana sem gera það að verkum að við sitjum inni í þægindahringnum.

Hættusvæðið

Eins ótrúlega og það hljómar þá er hægt að fara of langt út fyrir þægindahringinn. Þegar við gerum hluti sem eru svo langt fyrir ofan okkar getu að tilraunir okkar eru dæmdar til að misstakast. Okkur skortir nauðsynlega hæfni til að geta mögulega náð árangri. Ef ég myndi ákveða að hlaupa maraþonhlaup á morgun þá væri sú tilraun langt út fyrir minn þægindahring, svo langt fyrir utan að það væri vitleysa og dæmt til að mistakast. Mig skortir hæfni og getu til að takast á við slíka þrekraun. Líklegt er að slíkt myndi auk þess að mistakast gera það að verkum að ég yrði fráhverf hlaupum. Afleiðingarnar hefðu því neikvæð áhrif á sjálfsmynd mína. Tekið er dæmi um maraþonhlaup en hið sama getur átt við stofnun fyrirtækis, að halda ræðu fyrir stóra hópa, halda tónleika o.s.frv.

Þægindaskotskífan

Um daginn las ég áhugaverða grein þar sem þægindahringurinn títt umræddi er ekki hringur. Heldur skotskífa. Þægindaskotskífan. Hættusvæðið kemur þar líka við sögu.

Innsti punkturinn er þægindahringurinn. Það sem okkur finnst þægilegt. Það sem við kunnum, hlutir sem við höfum gert svo árum skiptir og okkur líður vel með.Þægindaskotskífa

Næstu tveir hringir eru Lærdómshringirnir. Þar finnst okkur óþægilegt að vera. Við erum ekki viss um okkur sjálf en það er þarna sem mestur lærdómur fer fram. Þarna tökumst við á við áskoranir sem stækka okkur. Ráðumst til atlögu við verkefni sem við erum ekki viss um að við ráðum við en teljum að hæfni okkar og geta styðji við árangur. Við teygjum á okkur.

Ysti hringurinn er hættusvæðið. Þar erum við komin svo fjarri hæfni okkar og getu að lítill sem enginn lærdómur getur farið fram. Hræðslan og óttinn verða lærdómnum yfirsterkari. Með því að stökkva úr þægindahringnum og alla leið á hættusvæðið erum við að bjóða hættunni heim og auka líkur á því að okkur mistakist svo hrapallega að það skaði sjálfsmynd okkar.

Til að ná auknum árangri ættum við að verja 30% tíma okkar í lærdómshringjunum. Þar tökum við erfiðar ákvarðanir, tökumst á við krefjandi verkefni, sækjum fundi með fólki sem hefur meiri þekkingu en við, tökum þátt í nefndarstörfum um málefni sem við höfum litla þekkingu á, tökumst á við leiðtogahlutverkið, höldum ræður eða hvað það er sem við verðum að gera, hvort sem okkur langar til eða ekki. En þó með þeim formerkjum að hæfni okkar og geta styður við lærdóm á þessum sviðum.

Með tímanum sjáum við að þessir hlutir innan lærdómshringjanna eru ekki svo erfiðir. Við skiljum ekki hvað það var sem við hræddumst og þægindahringur okkar hefur stækkað og felur nú í sér hluta lærdómssvæðisins. Þegar það gerist þá er kominn tími til að ýta sér út í næsta lærdómshring. Því við verðum stöðugt að teygja á okkur. Þegar við hættum að teygja á okkur þá stöðnum við.

Þægindahringurinn er því ekki „einn hringur“ heldur fremur þægindaskotskífa samsett úr mörgum hringjum. Lærdómshringirnir geta verið fleiri en tveir og með tímanum renna þeir saman við þægindahringinn og stækka hann. Höfum í huga að fyrir utan allt saman er hættusvæði. Ögrum því ekki heldur sættum okkur við það og verjum tíma okkar í að vinna með þá þætti sem rúmast innan lærdómshringjanna. Við það stækkar þægindahringurinn smátt og smátt og stökkið yfir á hættusvæðið verður því minna og ekki eins hættulegt.


Þorðu að spyrja

10 ára stúlka komst á dögunum í heimsfréttirnar fyrir að reka stjórnvöld í heimalandi sínu á gat6_questions_warranty_bkt_5219 með einfaldri spurningu. Stúlkan sem er indversk spurði einfaldlega : „hvenær varð Gandhi faðir þjóðarinnar“ .Við þessari einföldu spurningu fengust engin svör en unnið er að því hörðum höndum að komast að svarinu. Fram til þessa hefur engum dottið í hug að spyrja þessarar spurningar, spuringar sem er þjóðinni mkilvæg því eins og stúlkan segir „við eigum að vita allt um Gandhi“. Þjóðin tekur því sem sjálfsögðum hlut að hann sé faðir þjóðarinnar, allir nema 10 ára gömul stúlka.

Við þurfum að spyrja þessara einföldu en mikilvægu spurninga. Ekki bara um efni sem tengjast þjóð okkar heldur verðum við líka að spyrja okkur sjálf einföldu en um leið þeirra krefjandi spurninga sem fá okkur til að hugsa, velta fyrir okkur hvaðan við erum að koma og hvert við ætlum að fara.

Fyrir nokkrum árum sat ég fyrirlestur hjá Keith Cunnigham nokkrum. Þessi einfalda en krefjandi spurning ungu indversku stúlkunnar minnti mig á þann fyrirlestur því á honum lærði ég nokkrar einfaldar en mjög krefjandi spurningar sem ég hef spurt mig reglulega síðan.

·         Hvað geri ég í dag til að nálgast það sem ég vil?

·         Munu þessar aðgerðir færa mig nær markmiðunum eða er ég að gera málamiðlanir?

·         Hvernig myndi manneskjan sem ég vil vera nálgast þetta verkefni?

·         Hversu lengi get ég haldið í sýnina?

·         Hver þarf ég að verða til að ná þeim árangri sem ég vil ná?

·         Er ég tilbúin(n) til að takast á við afleiðingar þess að breytast ekki?

·         Hver er við stjórnvölinn?

·         Er ég að setja í gang þær aðgerðir sem leiða til þeirra áhrifa sem ég vil eða er ég að gera málamiðlanir?

·         Er ég tilbúin(n) til að gera það sem til þarf?

·         Hvað sé ég EKKI?

Fæsta daga hef ég svörin við þessum spurningum á reiðum höndum. En alveg eins og spurning indversku stúlkunnar þá fá þær mig til þess að hugsa mig gang og koma í veg fyrir að ég taki eingöngu því sem lífið fleygir að mér. Þær krefja mig til að taka meðvitaðar ákvarðanir og ekki síst til þess að skoða markmið mín og sýn. Hver vil ég vera og hvert vil ég fara. Það er það mikilvæga.

Spurningarnar gera það að verkum að markmið mín hafa orðið skýrari, það er auðveldara að takast á við krefjandi aðstæður, hegðun mín er tengdari gildum mínum. Þegar við lifum lífi okkar í takt við gildi okkar náum við markmiðum okkar fyrr en ella, sjálfstraust okkar eykst sem gerir það að verkum að við getum tekist á við meira krefjandi viðfangsefni.

Allt hefst þetta á því að hafa sýn sem byggir á skýrum gildum. Sýnin þarf að vera knýjandi og eitthvað sem þig langar að stefna að. Nýttu þér svo spurningarnar að ofan til að færast í átt að þeirri sýn.

Hvaða spurningar fá þig til að hugsa? Spurðu þig þessara spurninga reglulega og árangurinn mun koma þér verulega á óvart.

Frétt á mbl.is um indversku stúlkuna.


Segðu það!

Ég lærði mikilvæga lexíu s.l. laugardagskvöld. Eftir langan og viðburðarríkan dag kom ég við í Hagkaup til að kaupa inn nokkrar nauðsynjar. Klukkan var orðin margt, ég var orðin lúin og ég hef líklega verið þung á brún þegar ég kom að kassanum. Afgreiðslustúlkan heilsaði mér hlýlega, renndi vörunum í gegn og ég rétti henni debetkortið mitt til að greiða fyrir innkaupin.  Þegar ég rétti henni kortið rekur hún augun í hring sem ég geng iðulega með og mér þykir vænt um. Afgreiðslustúlkan unga lítur á mig segir: „ rosalega er þetta fallegur hringur“. Brúnin á mér léttist eðlilega við hólið en stúlkan segir um leið og hún er búin að sleppa orðunum: „ég hugsaði þetta...af hverju ekki að segja það.“

Þessi setning, „ég hugsaði þetta, af hverju ekki að segja það“ hefur ómað í huga mér nokkuð reglulega síðan afgreiðslustúlkan í Hagkaup færði hana í orð við mig, seint að kvöldi eftir að hafa hrósað mér fyrir hringinn minn fallega. Auðvitað. Hugsa ég alltaf í kjölfarið. Auðvitað eigum við að segja fallegu hlutina sem við hugsum við þá sem í kringum okkur eru. Auðvitað.

Það er hins vegar engu að síður svo að við höfum tilhneigingu til að halda aftur af okkur. Það sem við hugsum er ekki alltaf fært í orð (sem betur fer í mörgum tilfellum). Hversu oft hugsum við fallega til einhvers, dáumst að einhverju í huganum en færum þessar fallegu hugsanir ekki  í orð?

Næst þegar ég hugsa eitthvað fallegt um einhvern þá ætla ég að færa hugsanirnar í orð við viðkomandi. Sama hvort í hlut eiga börnin mín, maðurinn minn, samstarfsfólk, viðskiptavinir eða einhver bláókunnugur.

Ertu með?


Fjársjóðurinn innra með þér

Fjórir ungir menn sitja við dánarbeð föður síns. Gamli maðurinn segir þeim í andarslitrunum að á landareign fjölskyldunnar sé falinn gríðarlegur fjársjóður. Synirnir hópast að föður sínum og spyrja grátklökkir, „hvar, hvar???” en það er of seint. Gamli maðurinn er fallinn frá. Daginn eftir jarðarförina og vikum saman á eftir fara ungu mennirnir út með haka og skóflur, rífa upp jarðveginn, grafa djúpt og stinga upp hvern akurinn á fætur öðrum. Þeir finna engan fjársjóð og afar vonsviknir hætta þeir leitinni að lokum.

Uppskeran árið eftir var betri en nokkru sinni fyrr.

-Gömul dæmisaga, tekin úr bókinni The Art of Possibility.

Fjársjóðurinn var á landareigninni eftir allt saman. Hann var hins vegar á öðru formi en ungu mennirnir höfðu gert sér í hugarlund. Líklega hafa þeir átt von á því að grafa sig niður á fjársjóðskistur fullar af gulli og gersemum. Það sem þeir gerðu hins vegar var að pæla akrana svo vel að uppskeran var enn betri en áður. Það var fjársjóðurinn. Til að njóta hans þurfti að erfiða og puða. Gamli maðurinn hefur augljóslega þekkt syni sína vel.

Hvað ef ég segði þér að innra með þér býr gríðarlegur fjársjóður? Hvað myndir þú gera? Hversu marga akra ert þú tilbúin(n) til að pæla þig í gegnum til að uppskera? Hver væri uppskeran ef þú leggðir aðeins meira erfiði á þig? Nýttir þér styrk þinn örlítið betur?

Innra með þér býr gríðarlegur fjársjóður!


Þú getur meira en þú heldur

Þeir sem haft hafa aðgang að interneti undanfarin ár hafa líklega allir séð einhverja útgáfu af sögu Paul Potts, farsímasölumanninum frá Wales sem söng sig inn í hug og hjörtu bresku þjóðarinnar í hæfileikakeppninni Britain's Got Talent fyrir 5 árum. Ef þeir hafa ekki séð Paul Potts, þá er líklegt að þeir hafi séð Susan Boyle sem keppti í sömu keppni eða einhverja þeirra fjölmörgu annarra sem risu úr öskustónni og sýndu ótrúlega hæfileika þrátt fyrir að útlitið gæfi þá ekki til kynna. Sögur þessa fólks vekja hjá okkur hinum hughrif og ganga því eins og eldur í sinu um netheima.

Ég man þegar ég sá myndbandið með Paul Potts fyrst. Ég var í Þýskalandi og var myndbandið notað til að hjálpa hópi reyndra stjórnenda að velta fyrir sér hvort hugsanlega byggi meira í starfsmönnum þeirra en þeir héldu. Ég og aðrir í salnum fengum gæsahúð, slík voru hughrifin. Getur  verið að við dæmum starfsmenn okkar eða samferðafólk of hart og að í þeim búi meira en við höldum. Um það voru allir viðstaddir sammála. Klárlega.

Síðan hef ég fylgst með Paul Potts. Hann snerti einhverja strengi í hjarta mér umfram aðra sem settir hafa verið í svipaða aðstöðu og ratað hafa á veggi facebook síðna víða um heim. Það var eitthvað við hann, fötin sem pössuðu honum illa, brotin framtönnin, sorgmæddur svipur, titrandi neðrivör. Hann vissi ekki hvað hann átti af sér að gera á sviðinu og fólk í salnum skynjaði það. Þegar hann sagðist ætla að gera það sem hann væri fæddur til að gera, að syngja óperu, þá sást augljóslega  á andlitum bæði dómara og áhrofenda að fólk átti litla von á því að hann myndi standa sig eins framúrskarandi vel og hann gerði. Kolamolinn sem varð að demanti, ljóti andarunginn sem varð að fallegum svani. Enn þann dag í dag fæ ég gæsahúð þegar ég horfi á myndbrotið.

Paul Potts hefur í kjölfarið á sigrinum í Britain's Got Talent vegnað vel. Hann hefur ferðast um heiminn og sungið fyrir tónlistarunnendur, meðal annars á Íslandi. Í grein sem ég rakst nýverið á segir hann sjálfur frá því hvað gerst hefur síðan hann sigraði fyrrnefnda hæfileikakeppni. Og enn og aftur fékk ég gæsahúð.

Paul Potts á ennþá ódýru jakkafötin. Hann er búinn að laga tönnina og er að gera það sem hann var fæddur til að gera. Á fimm árum hefur hann gert hluti sem hann hefði aldrei ímyndað sér að hann gæti gert. Ólíkt mörgum sem hafa tapað jarðtengingunni við skjótan frama þá virðist hann standa föstum fótum á jörðinni og vita upp á hár hver hann er og hvað hann stendur fyrir.

En hver er stóri lærdómur Paul Potts? Jú nefnilega sá að  þú munt aldrei vita hvers þú ert megnug(ur) nema þú látir á það reyna. Við búum öll yfir ótakmörkuðum möguleikum sem við náum aldrei svo mikið sem að sjá fyrir okkur nema við tökum áhættu. Enn og aftur þessi títt umræddi þægindahringur – fyrir utan hann liggja tækifærin eins og Paul Potts hefur svo sannarlega fengið að reyna. Hann þurfti að fara út fyrir þægindahringinn þegar hann fór í áheyrnarprufuna sem færði honum frægð og frama. Hefði hann geta sleppt henni? Vissulega, en hann tók skrefið. Og í kjölfarið fjölmörg önnur út fyrir þennan blessaða ímyndaða hring sem heldur aftur af okkur.

299215_295709373775951_100000106713665_1429327_1347513636_n

Skref Pauls út fyrir þægindahringinn voru stór og fyrir framan milljónir sjónvarpsáhorfenda. Fæst okkar fá tækifæri til að taka slík risaskref. En tækifæri til að fara út fyrir þægindahringinn eru engu að síður fyrir framan okkur á hverjum degi, í leik og starfi. Sum stór en önnur lítil. Alltof oft kjósum við að líta framhjá þeim, sleppa þeim og missum þar af leiðandi af tækifærinu til að sjá hvers við erum megnug. Við segjum nei takk, gerum okkur upp afsökun og rænum okkur tækifærinu til að vaxa.

Mun okkur mistakast ef við gerum meira af því að grípa þessi tækifæri? Klárlega. En er ekki betra að hafa þó allavega reynt í stað þess að líta til baka á ævikvöldinu og sjá eftir því sem við gerðum ekki?

Hafðu augun opin fyrir tækifærunum sem eru allt í kringum þig til þess að fara út fyrir þægindahringinn. Aðeins þannig mun hann stækka og þú átta þig á hvers þú ert raunverulega megnug(ur). Þú gætir komið sjálfri/sjálfum þér, og heiminum, á óvart.

Grein Paul Potts má finna í heild sinni hér.


Lífslexía úr flugstjórnarklefanum

Ég hef verið svo lánsöm undanfarin ár að hafa fengið að ferðast mikið. Eins og flestir flugfarþegar þá sit ég aftur í vél, nýt góðrar þjónustu og velti svo sem ekki mikið fyrir mér hvað fram fer í flugstjórnarklefanum. Þar sitja sérfræðingar sem ég treysti að viti hvað þeir eru að gera og hafi hlotið nauðsynlega þjálfun.

Einhverju sinni var ég á leið frá London til Íslands. Ég hafði komið mér makindalega fyrir í sætinu þegar flugfreyjan uppýsir farþega um nöfn flugstjóra og flugmanns. Mér til ánægju var vélin undir stjórn gamals vinar sem ég hafði ekki séð lengi. Ég bað flugfreyjuna að bera flugstjóranum kveðju Flugstjórnarklefimína og stuttu síðar fékk ég boð um að koma fram í og heilsa upp á kappann. Enn var nokkur stund í flugtak svo ég þekktist boðið. Ég hafði komið í flugstjórnarklefa, mörgum árum áður og vissi svo sem hvernig þar var umhorfs. Fátt kom því á óvart en að loknum fagnaðarfundum bauð þessi vinur minn mér að sitja fram í í flugtakinu. Það hafði ég aldrei upplifað áður svo ég lét ekki segja mér það tvisvar. Ég kom mér fyrir í afar litlu sæti fyrir aftan flugmanninn og setti á mig heyrnartól svo ég gæti fylgst með fjarskiptum vélarinnar við flugturn.

Skemmst er frá því að segja að ég sat fyrir aftan þessa snillinga flugtakið á enda algerlega orðlaus. Samvinna þeirra var fumlaus, þeir fylgdu fyrirfram skýrt skilgreindum ferlum og augljóst var að þeir vissu upp á hár hvað þeir áttu að gera og hvenær. Óteljandi takkar og mælar í flugstjórnarklefanum sem ég hafði ekki hugmynd um hvaða hlutverki gengdu. Óskiljanleg orð og setningar sem sífellt glumdu í heyrnatólunum sem hefðu allt eins getað verið kínverska. Það var ekki ofsögum sagt að í þessu umhverfi vissi ég hvorki haus né sporð á því sem fram fór, hvað kæmi til með að gerast næst og hvernig hlutirnir virkuðu. Við komumst á loft eftir að hafa ekið góðan spotta um flugvöllinn eftir óskiljanlegum leiðbeiningum flugturnsins. Alfa, Delta, Bravó og guð má vita hvað hljómaði í eyrum mér.

Þegar flugtakinu var lokið tók ég af mér heyrnartólin og stundi upp úr mér einhverju í ætt við: „hvernig farið þið að þessu, hvernig vitið þið hvað á að gera næst, hvaða takki er hvað, hvað flugturninn er að segja. Þið eruð ótrúlegir, þvílík samvinna“ o.s.frv. Ég var rasandi yfir þessu og kannski líka yfir vanmætti mínum við þessar aðstæður.  Vinur minn með þeirri stóísku ró sem gjarnan einkennir þá sem bera mikla ábyrgð sagði: „Unnur mín, allt sem þú kannt, það er auðvelt.“

Allt sem þú kannt, það er auðvelt. Óteljandi skipti síðan hef ég sagt þessa setningu. Við mig sjálfa og aðra, maður á mann, við hópa, stóra sem smáa. Vinur minn flugstjórinn minnti mig á það að á bak við þá samvinnu og fumlausu vinnubrögð sem ég varð vitni að lá áratugalöng þjálfun og reynsla. Án þeirrar þjálfunar og reynslu hefðu þessir tveir menn ekki verið á þessum stað, á þessum tíma. Þeir kunnu það sem þeir áttu að gera og því var það þeim auðvelt. Ég kann eitthvað annað sem reynist mér auðvelt en þeim hugsanlega erfitt. Þú kannt eitthvað allt annað sem ekkert okkar hinna getur og okkur finnst flókið og erfitt.

Síðan þetta atvik átti sér stað hef ég tamið mér að þakka fyrir það sem ég kann og meta það í stað þess að fyllast vanmætti yfir snilli og kunnáttu annarra. Mín snilli liggur á öðrum sviðum en þeirra, sem betur fer.

Unnur Valborg Hilmarsdóttir
Stjórnendamarkþjálfi
www.vendum.is


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband