Rót vandans

Ímyndaðu þér að þú sért á gangi og allt í einu eins og af himnum ofan þýtur í átt að þér ör sem stingst á bólakaf í upphandleggin á þér. Eðlilega bregður þér og sársaukinn nístir í gegnum bullseyemerg og bein. Þín fyrstu ósjálfráðu viðbrögð eru að sjálfsögðu að taka um örina og velta fyrir þér hvað hún sé stór, skoða hvernig hún er á litinn og velta jafnvel fyrir þér hver hafi framleitt þessa ör!

Eða hvað???

Nei mér er til efs að viðbrögð þín við þessum tilbúnu og ótrúlegu aðstæðum væru eins og að framan greinir. Er ekki líklegra að þú tækir um örina og reyndir að rykkja henni úr án þess svo mikið sem að velta fyrir þér hverrar tegundar eða lögun hennar? Er ekki líklegra að ósjálfráð fyrstu viðbrögð væru að ráðast að rót vandans, því sem sársaukanum veldur með það að markmiði að minnka hann?

Líklega.

Gerum dæmið aðeins nærtækara og færum það nær raunveruleika margra kvenna. Þú vinnur of mikið, jafnvel á fleiri en einum vinnustað, eftir vinnu taka við ferðir með börnin í tómstundir, það þarf að fara í ræktina, það tekur tíma að borða hollt, nú og svo þarf makinn sinn tíma, ekki má heimilið sitja á hakanum, það þarf auðvitað allt að vera smekklegt þar innan dyra svo ég tali nú ekki um tandurhreint. Það þarf að versla inn, fara á milli verslana og finna vasann sem alls staðar er orðinn uppseldur, nú og svo þarf að fylgjast með á facebook, instragram, pintrest og helst vera pínulítið hnyttinn á twitter. Svo eru allar konur farnar að taka þátt í þríþraut, krakkarnir verða auðvitað að læra á skíði og línuskauta og fara á ylströndina þegar veður er gott.....verða ekki allir að vera í Rótarý....dæææs....þetta er aðeins brot af því sem margir brasa frá degi til dags, viku til viku. Eðlilega lætur eitthvað undan þegar álagið og atgangurinn er eins mikill og lýsingin segir til um eða jafnvel meiri. Alveg eins og örinni sem stingst á bólakaf í upphandlegginn fylgir sársauki þessu brjálæðsilega lífi sem við margar hverjar erum búin að koma okkur í.

Sársaukinn er annarskonar sá sem en örinni fylgir. Hugsanlega höfum við áhyggjur af því hvernig við eigum að púsla þessu öllu saman. Hugsanlega fylgja peningaáhyggjur – þetta kostar jú allt heilan helling. Stundum eigum við kannski erfitt með að festa svefn eða jafnvel einbeita okkur að verkefnum. Samskipti við okkar nánustu bera oft skaða af atganginum. Áunninn athyglisbrestur er tískuorð. Getur verið að þessi hlaup okkar á milli staða, milli verkefna til að koma öllu í verk sem þarf að koma í verk geri það að verkum að við eigum erfitt með að einbeita okkur, verðum gleymnar og vöðum þess vegna úr einu í annað (það kemur aldrei fyrir mig...ég þekki konu sem lendir stundum í þessu!!!).

Og hvað gerum við?

Nú auðvitað förum við á námskeið í hvernig við getum skipulagt okkur betur og þannig komið meiru í dagskrána. Förum við ekki líka í heilsubúðina og verslum okkur bætiefni til að hjálpa okkur að verða hamingjusamari, rólegri og einbeittari. Við verðum jú orkumeiri með því að æfa ennþá meira er það ekki? Við lesum enn fleiri bækur um hvernig við getum komið meiru í verk. Og berjum okkur svo niður þegar við erum sífellt þreyttar og tekst ekki að gera jafn mikið og vinkonan á facebook sem samhliða hví að hjóla hringinn í kringum landið, á heimili sem er eins og klippt úr úr Bo Bedre, prjónar eina lopapeysu á viku, labbar upp um öll fjöll á fjallaskíðum og á auk þess stillt og prúð börn sem eru alltaf að vinna til verðlauna á íþróttamótum og fá alltaf 10 í öllum prófum.

Það er þessi tilhneiging okkar að gleyma að hugsa um hver rót vandans er. Í dæminu með örina er það augljóst. Í hinu dæminu er rótin ekki alveg eins augljós. Það er því gríðarlega mikilvægt að gefa sér tíma til að komast að því hver rót vandans er. Gefa sér tíma til að taka stöðuna og meta hvað er það sem ég raunverulega vil. Hvað skiptir mig mestu máli og þannig vega og meta hverjum við getum sleppt og hverju ekki. Slaka svolítið á og hætta að bera sig saman við næsta mann.

Vandinn er að við gefum okkur ekki þennan tíma...það er fundur eftir klukkutíma og svo þarf að skutla stelpunni í ballett. Á meðan sæki ég strákinn í trommutíma og skutla honum á fótboltaæfingu. Sæki svo stelpuna og skutla henni heim. Þá er komið að því að fara sjálf á æfingu. Heim að elda mat. Svo er saumaklúbbur. Á morgun er nýr dagur og eitthvað annað sem tekur við og áður en við vitum eru mánuðurinn liðinn og svo árin.

Gefum okkur tíma áður en örin sem við skjótum sjálf í átt til okkar veldur of miklum skaða. Stöldrum við og metum hvert við erum að stefna og vinnum okkur þannig smátt og smátt út úr vítahringnum. Lærum að njóta í stað þess að þjóta!

Unnur Valborg Hilmarsdóttir

www.kvennahelgi.is


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband