Ert þú bergmál?

Warren Buffet er stundum kallaður Spámaðurinn frá Omaha, hann er einn ríkasti maður heims og fyrirmynd fjölmargra fjárfesta um víða veröld. Opinber ævisaga hans, Snowball, er afar athygliverð lesning. Af þessum snillingi má læra margt, ekki aðeins tengt viðskiptum heldur á svo mörgum öðrum sviðum.  Heiti bókarinnar vísar í skemmtilega samlíkingu Warrens um að lífið er eins og snjóbolti. Það sem mestu máli skiptir er að finna blautan snjó og mjög langa brekku!

Í bókinni eru sagðar ýmsar skemmtilegar sögur af langri og viðburðaríkri ævi merks manns. M.a. annars er sögð saga af stuttum tónlistarferli Warrens en hann lék á kornett sem barn. Hann segist seint verða talinn undrabarn með kornettið en eitt árið þótti hann þó það góður að honum var boðið að koma fram á hátíð í skólanum með skólahljómsveitinni. Hans hlutverk var einfaldlega það að bergmála leik trompetleikarans. Hann var fullur tilhlökkunar og þegar að hátíðinni kom var hann tilbúinn í slaginn.

Lagið hófst og trompetleikarinn spilaði Dum da DUM, og Warren bergmálaði með kornettinu, Dum da DUM, eins og honum var uppálagt.  Lítið mál. Samleikur Warrens og trompetleikarans gekk ágætlega framanaf en þegar líða tók á lagið fipaðist trompetleikarinn og í Dum da DUM kaflanum sem okkar maður átti að bergmála hljómaði honum til mikillar skelfingar Dum di DUM. Nú voru góð ráð dýr. ,,Það var eins og heimurinn stöðvaðist” sagði Warren þegar hann rifjar atvikið upp löngu seinna, ,,af því ég vissi ekki hvað ég átti að gera við þessar skelfilegu aðstæður. Það hafði enginn búið mig undir það að trompetleikarinn klikkaði. Hvað átti ég nú að bergmála? Ég lamaðist.”

Enn þann dag í dag segir Warren að hann muni ekki hvað hann gerði við þessar skelfilegu aðstæður. Hvort hann hélt sínu striki og vakti með því athygli á mistökum trompetleikarans við það að spila rétta nótu eða hvort hann gerði það sem honum var uppálagt og bergmálaði feilnótuna. Enda skiptir það ekki öllu. Það sem skiptir mestu er að á þessu atviki lærði hann lexíu sem hefur fylgt honum æ síðan. Hún er sú að það getur verið auðveldara að ganga í gegnum lífið í hlutverki bergmálsins, en aðeins þangað til hinn aðilinn slær feilnótu. Fyrst þá verða góð ráð dýr.

Í því felst mikill sannleikur. Það getur verið auðveldara að ganga í gegnum lífið með því að feta í fótspor annarra.  En um leið og þeir aðilar fara út af sporinu vandast málið. Eina leiðin til að koma í veg fyrir þau vandræði er að forðast það að vera bergmál, hafa kjarkinn og þorið til að fara sína eigin leið. Aðeins þá þurfum við ekki að hafa áhyggjur af því hvað gerist þegar hinn aðilin slær feilnótu.


Munurinn á að þurfa og vilja

Eflaust hafa margir fengið að heyra setninguna „þú verður að gera fleira en gott þykir“ frá foreldrum sínum á uppvaxtarárunum eða sambærilegar setningar. Það er ekki hægt að ganga í gegnum lífið og gera einvörðungu það sem okkur langar mest til. Við verðum að gera fleira en það sem gott þykir og láta okkur hafa að gera hluti sem okkur finnst síður skemmtilegir. Eða hvað? Getum við komist upp með að gera bara það skemmtilega? Líklega ekki. Það verða alltaf einhverjir hlutir sem við þurfum að gera þó okkur hugnist þeir síður. Sömuleiðis munu líklega alltaf einhverji hlutir sitja á hakanum sem okkur finnst við verða að gera og eru okkur mikilvægir.

Gott og vel. Undanfarna daga hefur mér verið tíðhugsað um akkúrat þetta og hvernig við tölum við okkur sjálf um þessa hluti sem við þurfum að gera en eru kannski ekki okkar uppáhalds. Við segjum við okkur sjálf setningar eins og:

 „ég þarf að fara að taka til í geymslunni“

„ég þarf að fara að koma mér af stað í ræktina“

„ég þarf að finna betra jafnvægi milli vinnu og einkalífs“

„ég þarf að borða hollari mat“

„ég þarf að nýta tímann betur í vinnunni“

...og svo framvegis. Hvað það er sem við þurfum að gera er misjafnt. En flest eigum við eitthvað sem okkur finnst við þurfa (eða verða) að gera sem við erum ekki að gera í dag.

Við „þurfum“ eða „verðum“ ekki bara að gera þá hluti sem okkur hugnast síður heldur líka þá sem eru okkur mikilvægir. Eins og:

„ég þarf að eyða meiri tíma með börnunum mínum“

„ég þarf að sinna vinunum betur“

„ég þarf að hlusta meira á maka minn“

„ég þarf að gefa starfsfólkinu mínu meiri tíma“

...og svo framvegis.

Hér er stóra fréttin: ÞÚ ÞARFT EKKI AÐ GERA NEITT AF ÞESSU!

Þú ÞARFT ekki að taka til í geymslunni, né fara í  ræktina, finna þetta blessaða jafnvægi, borða hollar eða nýta tímann betur. Þú ÞARFT ekki eða VERÐUR ekki að gera það sem setið hefur á hakanum en þér finnst þú skuldbundin(n) til að gera eða er þér mikilvægt. Það er enginn sem segir að þú VERÐIR eða ÞURFIR að sinna vinum þínum betur eða eyða meiri tíma með börnum (hvernig er annars hægt að eyða tíma með börnunum sínum?), hlusta meira á makann eða gefa starfsfólkinu meiri tíma.

Þú hins vegar VILT hugsanlega gera eitthvað af þessu eða þig LANGAR TIL þess. Það er stór munur á því að ÞURFA eða VERÐA og VILJA eða LANGA TIL.

Margir segja við sig „að þeir þurfi að vinna“. Hvernig væri að prófa að breyta orðalaginu og segja „ég vil vinna svo ég geti séð fyrir fjölskyldunni og gert það sem mér finnst skemmtilegt“. Í stað þess að segja ég „verð að eyða meiri tíma með börnunum“ að segja frekar „mig langar til að verja meiri tíma með börnunum mínum“. „Ég vil hreyfa mig meira“ í stað „ég verð að hreyfa mig meira“.  Og svo framvegis.

Hver er munurinn? Hvað gerist þegar einhver segir við þig að þú VERÐIR eða ÞURFIR að gera eitthvað? Líkur eru á að við finnum eitthvað því til foráttu sem við verðum, þurfum, eigum eða skulum gera. Það sem við viljum, langar eða ég tala nú ekki um dreymir um að gera er hins vegar miklu auðveldara í framkvæmd.

Þú þurftir til dæmis ekki að lesa þessa grein. Þú vildir það einhverra hluta vegna. Skoðaðu í framhaldinu það sem þú VERÐUR og ÞARFT að gera og hvort það er einhver leið til að þú getir látið þig VILJA, LANGA eða DREYMA um að gera það hið sama. Mér segir svo hugur um að það auðveldi leikinn.

Þú þarft ekki að prófa....en kannski viltu það!


Hvert er þitt meðaltal?

Ég er lánsöm kona. Ég er umkringd snillingum. Allt í kringum mig  er fólk sem ég get lært af og getur hjálpað mér að vaxa. Fjölskyldan mín leikur þar lykilhlutverk, vinir mínir sem ég met mikils og vinnufélagar. Viðskiptavinir mínir eru svo sér kapítuli útaf fyrir sig. Af þeim hef ég að líkum lært meira en af nokkrum öðrum og meira en á allri minni skólagöngu samanlagt.

Fyrir nokkrum árum lærði ég að ég er meðaltal þeirra sem ég umgengst. Því öflugra fólki sem ég eyði tíma með því öflugri verð ég sjálf. Við heyrum gjarnan neikvæðu birtingarmyndina af meðaltalskenningunni, „hann lenti í slæmum félagsskap“ en jákvæða hliðin getur ekki síður verið afdrifarík.

Ég vil meina að ég hafi „lent í góðum félagsskap“, þess vegna er ég sú sem ég er í dag. En ég er langt frá því að vera hætt. Ég er sífellt að leita leiða til að hækka meðaltalið mitt.

Meðaltalshugmyndin er komin frá Jim Rohn heitnum sem margir leita hvatningar hjá. Jim Rohn var „motivational speaker“ af gamla skólanum.  Fyrir um áratug var ég kynnt fyrir honum og þá og þegar hækkaði meðaltal mitt umtalsvert. Með orðum Jim Rohns:  

„Þú verður stöðugt að spyrja þig þessara spurninga: hverja er ég að umgangast? Hvað eru þeir að gera mér? Hvað fá þeir mig til að lesa? Hvað fá þeir mig til að segja? Hvert fá þeir mig til að fara? Hvað fá þeir mig til að hugsa? Og það sem mestu skiptir,  hver verð ég vegna þessa? Spurðu þig svo stóru spurningarinnar: Er það ásættanlegt?“

Líttu í kringum þig. Er meðaltal þeirra sem þú umgengst ásættanlegt meðaltal? Ef ekki, hvað þarftu að gera til að hækka meðaltalið? Gríptu til aðgerða og gerðu það sem þú þarft að gera til að verða betra eintak af sjálfum/sjálfri þér því þinn eigin vöxtur er það besta sem þú getur gert fyrir fólkið sem í kringum þig er. Þú getur lagt þitt af mörkum og hækkað þeirra meðaltal!


Brúin sem reist var með einum fingri

brooklyn-bridge-topsÞað var í kringum 1860 sem verkfræðingurinn John Roebling fékk hugmynd sem samtíðarfólki hans þótti brjálæðisleg og vonlaust verk að vinna. Eitthvað varð til þess að Roebling gat ekki ýtt þessari hugmynd úr huga sér þrátt fyrir úrölur um að það væri vonlaust að framkvæma hana, það bara væri ekki hægt, ekkert þessu líkt hafði verið gert áður. Eftir miklar umræður tókst honum að sannfæra son sinn Washington, nýútskrifaðan verkfræðing, um að verkið væri vinnandi. Saman lögðu þeir feðgar af stað í hina „vonlausu vegferð“ að mati annarra og hófust handa við að byggja Brooklyn brúna í New York.

Verkið fór vel af stað en eftir aðeins nokkurra mánaða vinnu lést John Roebling í kjölfar áverka eftir vinnuslys. Sonur hans Washington slasaðist, hlaut varanlegan heilaskaða sem gerði það að verkum að hann gat hvorki gengið, né talað.

Óhappið var eins og olía á eld úrtölumanna og kvenna sem endurtóku svartsýnisraus sitt í allra eyru: „ég sagði þetta allan tímann", „bilaðir menn að elta skýjaborgir“, „það er glapræði að eltast við svona draumóra“. Og miðað við ástandið var ekki útlit fyrir að byggingu brúarinnar yrði fram haldið. Enginn vissi hvernig átti að byggja hana annar en þeir feðgar. Washington reyndi hvað hann gat að koma verkinu yfir á vini sína úr stétt verkfræðinga en allt kom fyrir ekki. Enginn vildi taka verkið að sér. Sýn þeirra feðga var svo langt á undan þeirra samtíð að enginn sá fyrir sér að hægt væri að koma brúnni upp.

Einn dag lá Washington í sjúkrarúmi sínu og vorgolan feykti gardínunni frá glugganum svo hann sá glitta í heiðan himinn og trjátoppa úti við. Hann tók þessari fallegu sýn sem merki um að hann ætti ekki að gefast upp á byggingu brúarinnar þó svo að hann gæti hvorki gengið né talað. Allt sem hann gat var að hreyfa einn fingur – en hann einsetti sér þarna að nýta sér þann fingur til fulls og þróaði merkjakerfi sem hann og kona hans notuðu til að eiga samskipti. Konan hans, Emily, varð því tenging hans við umheiminn og hún tók yfir verkstjórn yfir byggingu brúarinnar og flutti skilaboð Wasingthons til verkfræðinga og verktaka. Í þau þrettán ár sem bygging brúarinar tók var það fingur Washingtons og túlkun konu hans á skilaboðunum sem gerði sýn þeirra feðga að veruleika. Brúin var vígð 1883 og var lengi vel stærsta brú sinnar tegundar í heiminum. Enn þann dag í dag er hún eitt glæsilegasta kennimerki stóra eplisins, stórvirki í byggingasögunni.

Brúin er ekki bara kennimerki borgarinnar og stórvirki í byggingasögunni. Hún er minnisvarð um mátt skýrrar framtíðarsýnar, þrautseigju, útsjónarsemi og síðast en ekki síst þess að gefast ekki upp. Hún minnir okkur á að hversu stór sem hindrunin fyrir framan okkur á leið okkar að markinu er, þá má alltaf finna leið yfir eða framhjá. Hindranirnar sem við stöndum frammi fyrir eru sem betur fer fæstar eins stórar og miklar og hindrun Washingtons en engu að síður látum við þær standa í vegi fyrir því að draumar okkar rætist. Þrá hans eftir brúnni var hindruninni yfirsterkari.

Fyrst hægt er að reisa brú með einum fingri...Hvaða hindrunum þarft þú að ryðja úr vegi í dag til að færast nær þinni framtíðarsýn?


Heppni eða ekki heppni?

Þeir sem fæddir eru um og fyrir 1970 muna vafalítið eftir sænska skíðakappanum Ingemar stenmark_430Stenmark. Ég man eftir því að fylgjast með skíðakeppnum í sjónvarpinu sem barn og "heija" með til að hvetja Stenmark. Fyrir nokkrum árum vann ég verkefni með sænskum manni og einhverra hluta vegna barst þessi þjóðhetja Svía til tals. Þessi sænski vinur minn var í barnaskóla þegar Stenmark var á hátindi ferils síns og lýsti því hvernig kennararnir trilluðu sjónvarpi á sal og allir nemendur fylgdust með honum keppa með öndina í hálsinum. Allir vildu vera eins og Stenmark og sænskt þjóðfélag lamaðist þegar hann vann sína stærstu sigra.

Til eru margar semmtilegar sögur af Stenmark og sænski vinur minn deildi með mér einni sem ég hef ekki gleymt og mjög oft hugsað um.

Einu sinni sem oftar var Stenmark að keppa, ekki fylgdi sögunni hvaða mót um var að ræða en eins ótrúlegt og það hljómar þá var Stenmark undir eftir fyrri ferðina. Ekki munaði miklu á honum og efsta manni en þó það miklu að það yrði veruleg áskorun fyrir Stenmark að vinna upp þann mun. Ungur íþróttafréttaritari spyr Stenmark með öndina í hálsinum hvað hefði eiginlega gerst í fyrri ferðinni? Ingemar svarar með þeirri stóísku ró sem hann er þekktur fyrir. "Nú ég er annar, það er staðan." Fréttaritarinn ungi heldur áfram og spyr "hvað ætlarðu eiginlega að gera í seinni ferðinni til að vinna þetta upp?" "Mitt besta" segir Stenmark og þar með var því viðtali lokið.

Áhorfendur bíða með öndina í hálsinum eftir seinni ferð Stenmarks. Keppinautur hans fór seinni ferðina á frábærum tíma sem gerði það að verkum að Stenmark þurfti að ná sínum allra besta tíma ætti hann að eiga möguleika á sigri. Dauðaþögn var í brekkunni þegar hann kemur sér fyrir í rásmarkinu og þegar hann stekkur af stað fara áhorfendur að hvetja hann sem aldrei fyrr. Ekki bara í brekkunni heldur líka í grunnskólum í Svíþjóð þar sem nemendur fylgdust með þjóðhetjunni með öndina í hálsinum.

Stenmark byrjar ágætlega en er langt frá sínu besta þegar millitíminn kemur á skjáinn...en svo er eins og eitthvað ótrúlegt gerist. Allt gengur upp. Hann skíðar eins og engill, nær betri tíma en nokkru sinni í seinni hluta brekkunnar og kemur í mark sem sigurvegari á mótinu. Áhorfendur tryllast og íþróttafréttamaðurinn ungi tekur til fótanna og ætlar að ná tímamótaviðtali við Stenmark eftir þennan ótrúlega sigur.

"Ingemar, Ingemar, þetta var ótrúlegt, þvílíkur sigur...þvílík heppni" másar íþróttafréttamaðurinn og rekur hljóðnemann í átt að Ingemar Stenmark sem dregur andann djúpt, og segir svo, enn með sinni stóísku ró: "er það ekki magnað, því meira sem ég æfi mig, því heppnari verð ég."

Ekki varð þetta viðtal lengra enda fátt annað hægt að segja.

Þessi orð skíðahetjunnar Ingemars Stenmark hafa setið í mér og segja ótrúlega margt. Þau eru góð áminning um að þeir sem ná árangri ná honum sjaldnast fyrir einskæra heppni heldur liggur að baki mikil vinna og óteljandi stundir við æfingar og undirbúning. Malcom Gladwell segir í bók sinni Outliers frá því að rannsóknir sýni að til að skara fram úr á einhverju sviði þurfi a.m.k. 10000 stunda þjálfun eða undirbúningur að liggja að baki. Meira að segja Bítlarnir hafi spilað linnulaust í Þýskalandi mánuðina og árin áður en þeir voru uppgötvaðir í Liverpool og þeir hafi án vafa átt meira en 10000 stunda spilamennsku að baki áður en þeir slógu í gegn. Heppni hafði lítið með þeirra velgengni að gera, heldur má skrifa hana á þrotlausa vinnu. Í ljósi árangurs kvikmyndar Baltasars og hans velgengni væri áhugavert að slá tölu á þær vinnustundir sem hann hefur unnið að undirbúningi þessa verkefnis allt frá því að hann var við nám í leiklistarskólanum. Ég giska á að þær stundir séu fleiri en 10 þúsund! Hversu mörgum stundum ætli frjálsíþróttakona Helga Margrét hafi varið í æfingar á sínum ferli? Þær eru ófáar og líklega fleiri en 10 þúsund. Og svo mætti lengi telja.

Ert þú tilbúin(n) til að leggja á þig það sem til þarf til að skara fram úr eða ertu að bíða eftir því að heppnin hitti þig fyrir?


Ég er steinhætt(ur) að strengja áramótaheit, þau klikka einhvernveginn alltaf!!!

Áramótin eru tími markmiða og áheita. Ert þú ein(n) af þeim sem strengir áramótaheit eða ertu steinhætt(ur) því af því að þau ganga aldrei eftir?

„Þú getur náð öllum markmiðum þínum ef þú vinnur staðfastlega að því.“ Sagði Cha Sa-Soon, 68Cha Sa Soon stolt með niðurstöðu bílprófsins eftir 950 tilraunir ára gömul kona frá Suður Kóreu sem náði skriflegu bílprófi í landi sínu eftir 950 tilraunir.

Þegar ég las um Cha Sa-Soon velti ég því fyrir mér hvort henni hefði aldrei dottið í hug að gefast upp. Líklega hefur það hvarflað að henni. Spurningin er þá hvenær. Ætli það hafi verið eftir 372 tilraunir, eða kannski eftir 789 tilraunir. Skiptir kannski ekki öllu. Það sem skiptir mestu máli er að hún gafst ekki upp og á endanum náði hún markmiði sínu. Hennar markmið breytir kannski ekki heimssögunni en markmið Edisons þegar hann vann að ljósaperunni átti eftir að breyta heimssögunni. Sagan segir að það hafi tekið hann 3000 tilraunir að finna upp ljósaperuna. Það er erfitt að ímynda sér hvað hefði gerst ef hann hefði gefist upp eftir 2798 tilraunir! Þegar hann var spurður út í þetta erfiði kom berlega í ljós hvers vegna hann gafst ekki upp eftir allar þessar misheppnðu tilraunir: „Mér mistókst ekki 3000 sinnum heldur fann ég 3000 leiðir til að láta ljósaperu virka EKKI.“

 Viðhorf Edisons er það viðhorf sem við verðum að tileinka okkur til að ná árangri í atlögu okkar að þeim markmiðum sem við setjum okkur. Okkur á eftir að mistakast en það er hvernig við tökumst á við þessi mistök sem sker úr um hvort við náum árangri eða gefumst upp.

Hversu knýjandi eru þín markmið?

Mestu máli skiptir að sýn okkar sé eins knýjandi og mögulegt er til að minnka líkurnar á því að við gefumst upp.

Hvernig er þitt viðhorf gagnvart þeim markmiðum sem þú hefur sett þér. Hversu knýjandi eru þau? Af hverju viltu ná þessum markmiðum? Hvað breytist þegar þú hefur náð þeim? Er þetta eitthvað sem skiptir þig verulegu máli?

Ef svörin við þessum spurningum fá þig til að iða í skinninu við að hefjast handa við að vinna að markmiðinu eru meiri líkur á að þú náir árangri. Þegar niðurstaðan er knýjandi eru meiri líkur á að við höfum hana í huga þegar hugsanir um að gefast upp sækja á okkur. Og trúðu mér, þær hugsanir eiga eftir að sækja á. Hversu mörg áramótaheit falla ekki í gleymskunnar dá stuttu eftir að þau eru strengd?

Sagt er að 15. janúar sé sú dagsetning sem flestir eru búnir að gefast upp á áramótaheitum sínum. Þrautsegjan er því varla mikil. Er það furða að algengasta svarið við spurningunni „strengdir þú áramótaheit“ sé „nei ég er alveg steinhætt(ur) því, þau klikka einhvernveginn alltaf“. Af því að þau klikka alltaf hugsar fólk með sér að það sé  betra að spara sér þau mistök með því að sleppa því alfarið að setja sér markmið. Þar liggur raunverulegi vandinn, hræðslan við að mistakast verður ávinningnum yfirsterkari . Með því að setja okkur ekki markmið, hvort sem þau eru á formi áramótaheita eða annarskonar formi, erum við að ræna okkur möguleikanum á að ná enn meiri árangri.

Líf án markmiða er eins og skip án áfangastaðar. – Óþekktur höfundur


Gamli maðurinn og blýanturinn

Við fengum eftirminnilega heimsókn á skrifstofuna á dögunum. Til okkar kom gamall maður með eldgamlan skrúfblýant sem merktur var Viðurkenning fyrir tímamótaárangur á Dale Carnegie námskeiðinu. Hann mærði pennan og blýið sem í honum var mikið – sagðist hafa skrifað með sama blýinu í áraraðir en nýverið hafi það klárast og það virtist engin bókabúð selja blý sem passaði. Þess vegna hafði hann gert sér ferð til okkar á bílnum sínum til að athuga hvort við gætum aðstoðað hann. Það væri nú kannski ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að maðurinn var 96 ára gamall, enn að vinna við sitt eigið fyrirtæki í innflutningi! Hann sýndi okkur meira að segja ökuskírteinið sitt því við áttum bágt með að trúa manninum, svo hress var hann og lipur en það stóð heima, hann var fæddur árið 1911, ári áður en Dale Carnegie hélt sitt fyrsta námskeið! Þetta var heimsmaður, óaðfinnalega klæddur í brúnum rykfrakka yfir jakkafötin, líklega bandarískur, mér láðist að spyrja, talaði ótrúlega góða íslensku en skipti öðru hvoru yfir í ensku sem augljóslega var hans móðurmál. Fas hans minnti mig svo sterkt á greifann sessunaut minn í óperunni í Munchen á dögunum – fas manna sem kunna að meta gæði lífsins. Hann minnti mig líka á afa sem rak fyrirtæki í áratugi og keypti aldrei neitt út á krít eins og hann orðaði það – menn sem standa við orð sín.

Ég handfjatlaði pennann, hristi hann og heyrði strax að það var blý í geymsluhólfinu og aðstoðaði gamla manninn við að setja það á sinn stað – það þurfti smá lagni en gekk að lokum. Blýið var þykkt, augljóslega gæðablý og ræddum við nokkra stund um gæði, hvað það skipti hann miklu máli að versla með gæðavöru. Hann sagði augljóst að blýinnihaldið í þessu blýi væri hátt sem sannaðist á því hve lengi það entist honum. Hann var að vonum ánægður með að við gátum aðstoðað hann við þetta og ég sagði honum að þetta blý myndi eflaust endast honum í áraraðir eins og hið fyrra og hann hefði meira að segja lítinn bút upp á að hlaupa í geymsluhólfinu þegar þennan þryti.

Ég var að vonum forvitin um blýantinn góða. Átti eitt sinn einn slíkan sem ég hafði komist yfir með mikilli fyrirhöfn en gefið frá mér og spyr manninn hvar hann fékk hann. Í ljós kom að konan hans hafði fengið viðurkenningu á námskeiði fyrir fjölda ára. Við spjölluðum áfram og reyndist sá gamli afar skemmtilegur og hress.  Frásagnir hans og fas einkenndist af krafti og glettni sem við sem yngri erum mættum taka okkur til fyrirmyndar. Hann hreif okkur með sér með kraftinum og orkunni sem stafaði frá honum. Hann var eldmóðurinn holdi klæddur, 96 ára gamall maður!

Ég spurði hann hverju hann þakkaði háan aldur og hressleikann. Hann nefndi tvennt. Fyrsta að hann var vel giftur, brosti við þau orð út að eyrum. Og hið síðara með glettni í rómnum að hann fengi sér Grappa á hverjum degi, eitt staup og ef löng bið var eftir matnum, stundum tvö og ef biðin var enn lengri þá þrjú...en þá væri hann orðinn fullur...Grappa væri jú svo sterkt  Hann sagði svo skemmtilega frá samtölum sínum við konuna sína: „elskan, er langt í matinn?“, og hún svaraði: „nei, svona tíu mínútur elskan mín“ og þá ákvað hann að fá sér annað staup, spurði svo stuttu síðar: „elskan mín, hvað er langt í matin“ og frúin svaraði o.s.frv.

Þegar þessi nýi vinur okkar fór að tala um konuna sína sem hafði verið samferða honum í lífinu í áratugi breyttist fas hans skyndilega. Honum vöknaði um augun. Hann afsakaði sig, varð niðurlútur, þagnaði í stutta stund og sagði okkur með brostinni röddu að elskan hans væri nýdáin. Hann hefði jarðsett hana nokkrum dögum áður. Allt í einu var eldmóðurinn horfinn og í stað komin óendaleg sorg.

Hann lyfti upp blýantinum, rétti aðeins úr sér og sagði: „þess vegna vildi ég fá nýtt blý – þetta eru minningar“. Penninn minnti hann á elskuna hans sem fyrir svo stuttu hafði kvatt hann. Og rétt síðar kláraðist blýið í blýantinum sem hún hafði fengið í viðurkenningu á námskeiði áratugum áður.

Mér þótti vænt um að heyra sögu þessa blýants og hvaða gildi hann hafði fyrir þennan yndislega gamla mann. Hann minnti hann svo sterkt á elskuna sína að hann vildi halda áfram að nota hann. Eins og hann sagði sjálfur brostinni röddu og tárvotum augum þegar hann lyfti honum, „memories“.

Okkur setti hljóðar. Ég þakkaði í huganum fyrir að geta lagt þessum sorgmædda gamla manni lið. Hann kvaddi okkur kurteisislega, þakkaði fyrir sig og gekk hægt niður stigann. Hann sagðist orðinn örlítið óstyrkur og hélt þétt í handriðið.

Mér segir svo hugur um að ég eigi oft eftir að hugsa um þennan gamla mann og sögu blýantsins. Hún minnir mig á að það eru litlu hlutirnir sem skipta mestu máli, veri það blýantur, bók eða handskrifuð kveðja. Hún minnir mig á það lán að fá að snerta líf fólks í mínu starfi og hjálpa því að skapa minningar. Minningar sem ég í fæstum tilfellum veit nokkuð af. Hún minnir mig á að sögurnar leynast víða. Við þurfum bara að gefa okkur tíma til að hlusta.

Ég vona að mér beri gæfa til að njóta litlu hlutanna, snerta líf annarra og einlæglega sýna öðrum áhuga á meðan mér endist ævin.

Vittu til
ef þú kafar
nógu djúpt
leynast perlur þar
-Perlukafararnir, Dúett Jóhönnu Vigdísar og Röggu Gísla 

London 10. júlí 2007


Hugsaðu stórt

Virtu sjálfan þig hátt, og lífið mun gefa þér allt sem um er beðið.
Hugsaðu stórt, og veröldin mun stækka með þér.
Hugsaðu frjóar hugsanir, þær munu lita alla veröld þína, eins og vísir að aldini litar blómið.
Óttast ekki er kjörorð hins þrönga vegar sem liggur til lífsins.
Og láttu skapandi hugsanir þínar fylla hin óskráðu blöð í bókinni um manninn.
-Gunnar Dal

Our Deepest Fear

Our deepest fear is not that we are inadequate.

Our deepest fear is that we are powerful beyond measure.

It is our Light, not our Darkness, that frightens most of us.

We ask ourselves, who am I to be brilliant, gorgeous, talented, fabulous?

Actually, who are we NOT to be?...

There is nothing enlightened about shrinking so that other people won't feel insecure around you...

As we let our own Light shine, we unconsciously give other people permission to do the same.

As we are liberated from our own fear, our presence automatically liberates others.

Marianne Williamson


Umpottun sjálfsins

Einhverra hluta vegna er mér mjög minnistætt úr æsku á vorin þegar mamma tók pottaplöntur heimilisins og umpottaði þeim sem sem þess þurfti og bætti á eða skipti um mold á hinum. Ég man sérstaklega eftir hvað mér þótti skrítið þegar rætur plantanna höfðu stækkað svo mikið að þær fylltu nánast út í pottinn svo að plantan gat nærri staðið á rótunum einum saman þó potturinn hefði verið fjarlægður. Ég skildi að þegar svo væri komið gæti plantan sú ekki vaxið meir og því þyrfti að setja hana í stærri pott og bæta á hana mold til að hún gæti haldið áfram að vaxa og dafna. Viti menn – nokkrum dögum og vikum síðar hafði viðkomandi planta tekið vaxtarkipp – rétt úr sér – orðið grænni og ræktarlegri en áður.

Þegar ég hugsa um þessi vorverk þá leitar á mig sú hugsun að í raun erum við mannfólkið um margt lík plöntunum. Með árunum verður okkar blómapottur til í formi okkar nánasta umhverfis, fjölskyldu, vina, áhugamála og starfs. Við vöxum og döfnum og rætur okkar stækka og styrkjast. Við bókstaflega skjótum rótum. Við fáum næringu frá umhverfinu eins og plantan. Í flestum tilfellum náum við árangri í því sem við erum að gera, lífið gengur sinn vanagang og hlutirnir verða þægilegir og auðveldir. Þá má með raun segja að rætur okkar séu farnar að fylla út í pottinn. Rýmið til að vaxa meir verður takmarkaðra. Hvað er þá til ráða? Því miður held ég að alltof margir taki því ástandi sem sjálfsögðum hlut. Hér er ég komin á minn stað og hér mun ég vera. Potturinn minn er passlegur, mér líður vel í honum og hér mun ég vera. Og af hverju ekki?

Jú því það sama gerist hjá okkur og hjá plöntunni þegar potturinn er farinn að þrengja að. Við hættum að vaxa og dafna. Við náum ákveðinni stærð – oft alveg ásættanlegri stærð og ákveðum meðvitað eða ómeðvitað að stækka ekki meira. Eftir umpottunina tekur plantan sýnilegan og oft ótrúlegan vaxtarkipp á stuttum tíma. Er mögulegt að það sama eigi við um okkur mannfólkið?

Hvað gerist til dæmis þegar við tökumst á við áskoranir sem reyna á okkur? Sækjum krefjandi námskeið, ákveðum að skipta um starf, lendum í óvæntum erfiðleikum, t.d. veikindum eða skilnaði, förum í nám o.s.frv. Vera má að við uplifum óþægindi á meðan á því stendur en eftir á getum við alla jafna litið til baka og séð að með því að ganga í gegnum þessar áskoranir stöndum við eftir sterkari en áður. Við höfum með því að takast á við viðkomandi áskoranir vaxið og dafnað. Við eigum auðveldara með að takast á við annars konar áskoranir sem við mætum, nýjungar, breytingar og áföll. Við höfum tekið vaxtarkipp eftir okkar eigin umpottun. Stundum þarf ekki einu sinni að skipta um pottinn - oft  dugar að bæta við örlítilli mold og losa um ræturnar.

Hefur þú hugsað um hvort þínar rætur eru orðnar aðþrengdar í pottinum? Þarf að hrista aðeins upp í þeim og skipta um mold til að þú getir tekið næsta vaxtarkipp eða þarf kannski að skipta yfir í stærri pott til að þú getir vaxið enn meira, blöðin grænki og stilkurinn styrkist?

Alveg eins og ég varð oft hissa á hversu annars falleg blóm gátu orðið enn fallegri með eins einfaldri aðgerð og umpottun hef ég í mínu starfi orðið vitni af því hvernig annars sterkir einstaklingar hafa orðið enn sterkari með því að fagna áskorunum og sumir hverjir jafnvel leita þær uppi. Ég tek mér slíka einstaklinga til fyrirmyndar því aðeins með því að vera stöðugt að skora á okkur sjálf og umpotta okkar sjálfi reglulega færumst við nær því að ná þeim árangri sem við getum og viljum ná. Og þótt ótrúlegt megi virðast þá er sá árangur nær alltaf meiri en við teljum okkur fær um að ná.

Þarft þú umpottun? Ég skora á þig að skoða hvort þú þurfir á umpottun að halda eða a.m.k. að hrista upp í rótunum reglulega og þú munt ná meiri árangri en þú þorðir nokkurn tíma að láta þig dreyma um!

Að umpottun lokinni í Vínarborg, 19. apríl 2007

Unnur Valborg Hilmarsdóttir


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband